Legghlífar í reið eru helst notaðar til að koma í veg fyrir meiðsli, enda eru skemmdir á sinum talin ein algengustu meiðslin hjá reið- og keppnishestum. Sinaskemmdir krefjast jafnan langrar hvíldar og endurhæfingar, ásamt því að vandamálið verður oft krónískt og erfitt að eiga við. Að nota legghlífar í reið veitir sinunum stuðning og hjálpa þar með við að draga úr þreytu í sinum. Við daglega þjálfun og hreyfingu getur orðið slit á sinum og liðböndum og smám saman getur það leitt til sinaskemmda.
Legghlífar geta einnig hjálpað við að verja hestinn gegn ágripum og öðrum áverkum. Áverki getur komið til vegna umhverfisins (s.s. steina, brokkspíra, hesturinn rennur til o.fl.) eða frá hestinum sjálfum. Hestar geta til að mynda gripið á sig með því að stíga aftan á framfætur með afturfótum og tekið skeifurnar undan sér, marið á sér hófinn eða hófhvarfið, valdið því að þeir hrasi eða detti, skaði beygjusinar eða rifið upp á sér hælinn. Einnig geta fæturnir rekist utan í hvorn annan, t.d. í hliðargangsæfingum en einnig getur líkamsbygging haft áhrif þar um.