ATH. Athygli er vakin á því að æskilegt er að einungis vant hestafólk noti nuddbyssuna á hest þar sem mikilvægt er að lesa í líkamstjáningu hestsins þegar tækið er notað. Einnig er fólk hvatt til að afla sér ítarlegri þekkingar á vöðvauppbyggingu hestsins til að sem bestum árangri sé náð.
Notkunarleiðbeiningar
- Einungis skal nota nuddbyssuna á mjúkvefi líkamans, þ.e. vöðva og bandvefi en alls ekki á bein, s.s. hrygg, fótleggi og höfuð.
- Ekki er mælt með því að þrýsta nuddbyssunni niður um leið og meðferð er beitt heldur láta hana liggja létt á líkamanum og leyfa þrýstihöggunum að vinna á vöðvunum.
- Mælt er með því að hafa nuddbyssuna á stöðugri hægri hreyfingu og hafa þá tíðari viðkomu á stöðum sem þurfa á sérstakri athygli að halda, t.d. vöðvahnútum eða þrýstipunktum.
- Hægt er að nota sokk eða poka, t.d. ullarsokk eða plastpoka utan um nuddhausinn bæði til þess að draga úr þeim þrýsting sem nuddbyssan veitir, sem og að halda ryki og öðrum óhreinindum frá nuddhausainntaki og loftræstingargötunum. Athugið þó að plastpoki getur gefið frá sér hljóð sem hesturinn gæti tekið nærri sér.
Fyrsta notkun
- Ávallt er mælt með því að vera með tækið á lágri stillingu þegar byrjað er að kynna nuddbyssuna fyrir hestinum.
- Gott er að setja tækið af stað í lægstu stillingu, leyfa hestinum jafnvel að þefa af tækinu ef hann veltir fyrir sér hljóðinu og byrja á meðferðinni við herðar og bóga.
- Leyfið hestinum að venjast tilfinningunni með því hafa á lágri hraðastillingu fyrstu skiptin.
- Gott er að byrja á að nota nuddbyssuna í stuttan tíma í einu og auka svo tímalengdina eftir því sem hesturinn venst tilfinningunni og sýnir vellíðunarmerki.
- Mælt er með að gefa sér tíma, byrja rólega og fylgjast vel með líkamstjáningu hestsins.
- Mælt er með notkun á boltahausnum til að byrja með, þar sem hann gefur mýkstan þrýsting.
- Hver hestur er mismunandi og gæti tekið meðferð á misjafnan hátt.
- Mikilvægt er að vera vakandi fyrir hvaða merki hesturinn er að gefa og forgangsraða því að honum líði vel og sé rólegur.
- Með tímanum lærir meðhöndlari hestsins inn á hvað hestinum líkar þegar kemur að vali á nuddhaus, staðsetningu og hraðastillingu.
- Markmiðið ætti ávallt að vera að meðferð virki slakandi fyrir hestinn áður en farið er í nánari djúpvefjameðferð.
Merki um slökun hjá hestinum
- Hesturinn japlar og/eða sleikir út um.
- Hesturinn lækkar höfuðið og/eða hvílir fótinn.
- Hesturinn geispar (mjög gott merki um afslöppun).
- Eyru hestsins eru afslöppuð til hliðar eða vísa að meðhöndlaranum.
- Augu hestsins eru afslöppuð og blikka með reglubundnum hætti, jafnvel lygnir aftur augunum.
- Nasir eru afslappaðar.
- Hesturinn ber taglið laust frá líkamanum.
Ef hesturinn sýnir óæskileg merki við meðferð er ráðlagt að hætta notkun á nuddbyssunni og ráðfæra sig við dýralækni eða annan menntaðan meðferðaraðila.
Merki um spennu eða hræðslu hjá hestinum
- Hesturinn stífnar upp og reisir hálsinn óæskilega mikið.
- Hesturinn sýnir sársauka eða óþægindaviðbrögð á þeim stað sem nuddbyssan kemur við, t.d. færir sig undan, hrekkur við eða spennir vöðvann.
- Hesturinn heldur taglinu klemmdu að sér.
Nudd hefur lengi verið hluti af umönnun og endurhæfingu hrossa. Lestu yfirlitsgrein um nuddmeðferðir á hestum og nýlegar rannsóknir um notkun á nuddbyssum hér að neðan.