Hvernig getur beitargríma viðhaldið heilbrigðu holdafari hesta?

Beitargríma (e. grazing muzzle) er búnaður sem er hannaður til að takmarka inntöku grass hjá hestum á beit. Með því að nota beitargrímu innbyrðir hesturinn talsvert minna af grasi heldur en við hefðbundna beit en nær engu að síður að borða nóg til þess að viðhalda heilbrigðri meltingarstarfsemi og vellíðan. Hestar með efnaskiptasjúkdóma, s.s. hófsperru, sykursýki eða insúlínónæmi og þeir sem eiga í hættu að verða of feitir geta notið góðs af því að vera með beitargrímu.

Góð ráð til að viðhalda heilbrigðu holdafari hesta án þess að takmarka útiveru:

  1. Notast við beitargrímu þar sem hún tryggir lengri útiveru og þ.a.l. meiri hreyfingu
  2. Tímasetja beitaraðgang skynsamlega og eftir þörfum hrossa
  3. Koma í veg fyrir ofbeit beitarstykkja þar sem sykurinnihaldið verður hærra
  4. Tryggja aðgang að vatni og steinefnum
  5. Gefa hey samhliða beit

Að nota beitargrímu er áhrifarík aðferð til þyngdartaps eða til að viðhalda ákjósanlegri þyngd

Að notast við beitargrímu er áhrifarík aðferð til þyngdartaps eða til að viðhalda ákjósanlegri þyngd hestsins þegar hann fær að vera á grænum grösum. Í stað þess að þurfa að takmarka tímann sem hesturinn fær að vera frjáls á beit er hægt að takmarka magnið sem hesturinn innbyrðir, sem eykur tímann sem hesturinn fær til fóðurinntöku og hreyfingar.

Lengri útivera án mögulegra neikvæðra heilsufarslegra áhrifa

Nú til dags er offita meira heilsufarslegt vandamál hjá hrossum heldur en vanfóðrun, þar sem hross eru oftar haldin á ræktuðu landi frekar en í úthaga þegar þau eru í þjálfun. Jafnframt er það velferðarsjónarmið að leyfa hrossum næga útiveru og beit yfir sumarið en fyrrgreind vandamál koma oft í veg fyrir að það sé hægt nema til skamms tíma í einu.

Nú þegar komið er vor og grænu grösin farin að vaxa, er mikilvægt fyrir hesteigendur að vera meðvitaðir um hvenær og hvernig þeir beita hestum sínum. Ferskt gras er mjög ríkt af sykri og veldur breytingu á sýrustiginu í afturgörn hestsins og kemur þannig róti á viðkvæma bakteríuflóru sem getur leitt til ýmissa vandamála, s.s. hrossasóttareinkenna. Sykurinnihald grassins er ekki eingöngu breytilegt eftir árstíð heldur einnig eftir tíma dags og veðri. Þegar sólin skín á grasið veldur það ljósstillífun sem grasið notar yfir nótt til að halda áfram að vaxa. Þannig er yfirleitt hærra sykurinnihald í grasinu seinnipart dags samanborið við fyrripart dags.

Beitargríma og skynsamleg beitarstjórnun lágmarkar vandamál

Fyrir hross sem eru viðkvæm fyrir sykurinnihaldi grassins er mælt með því að beita þeim mjög snemma á morgnana. Það tekur nokkrar klukkustundir eftir að sólin sest fyrir sykurmagnið að minnka og svo byggist það aftur upp við að vera útsett fyrir sólinni á morgnana. Ef það er mjög skýjað er hægt að lengja tímann sem hrossið fær að vera úti um morguninn, þar sem ljósstillífunin er hægari þegar skýjað er og sykurinnihaldið því minna. Hins vegar getur lágur næturhiti (næturfrost á Íslandi) valdið því að mikið sykurmagn sé ennþá í grasinu þegar sólin kemur upp um morguninn. Með því að tímasetja beitaraðgang fyrir hross getur það komið í veg fyrir alvarleg vandamál.

Með því að notast við beitargrímu og tímasetja beit á viðeigandi hátt er mögulegt að leyfa hrossum lengri útiveru án mögulegra neikvæðra áhrifa. Skynsamleg beitarstjórnun fyrir hross hefur þau áhrif að lágmarka þau vandamál sem geta komið upp við umönnun og fóðrun þeirra til bæði skamms og langtíma. Einnig er mikilvægt að tryggja hestinum aðgang að vatni og steinefnum og einnig gæti verið gott að fóðra hestinn með heyi á milli beitartíma til að halda magasýrum í jafnvægi.

Kíktu á myndbandið hér fyrir neðan til að sjá hvernig Thinline beitargríman er sett á hestinn

Þessi vefsíða notar fótspor (cookies) til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um notkun fótspora.