fbpx

Um nuddmeðferðir á hestum

Nuddmeðferðir hafa löngum sannað gildi sitt fyrir mannfólkið af ýmsum ástæðum, s.s. til slökunar og almennrar vellíðunar en einnig til að draga úr verkjum í vöðvum, liðum og liðamótum. Nudd er mörg þúsund ára gömul aðferð sem á uppruna sinn í Kína og hefur lengi verið skilgreind sem meðferð til að meðhöndla vefi líkamans með höndunum, með það að leiðarljósi að örva tauga-, vöðva- og æðakerfið.

Flestir finna einhverntímann fyrir óþægindum eða verkjum í líkamanum sem koma til vegna t.d. álags, sjúkdóma, íþróttaiðkunar eða meiðslna og hafa rannsóknir á fólki sýnt að nudd getur haft jákvæð áhrif á slíka verki, sem og að nudd stuðlar að bættum svefni, lækkuðum blóðþrýsting og getur dregið úr streitu og meltingaróþægindum (Moyer, Rounds & Hannum, 2004).

Í kjölfarið á vinsældum nuddmeðferða meðal afreksíþróttafólks hafa nuddmeðferðir fyrir hesta rutt sér til rúms á undanförnum árum og er slík meðferð að verða sífellt algengari í umönnun afrekshesta sem og venjulegra reiðhesta (Scott & Swenson, 2009). Mismunandi nuddmeðferðir eru gjarnan notaðar til endurhæfingar á hestum, t.d. til að draga úr myndun örvefs, slaka á vöðvaspennu og til að hámarka vöðvastarfsemi og auka hreyfigetu (Atalaia, Prazeres, Abrantes & Clayton, 2021).

Flestar nuddmeðferðir fyrir hesta einbeita sér að þrýstitækni, s.s. þrýstipunktanudd og bandvefslosun (e. myofascial release). Þrýstipunktanudd er stór hluti af nútíma íþróttanuddi fyrir fólk og byggir á þeirri hugmyndafræði að mesta álagið á vöðvana komi fram við upptök og vöðvafestur. Þessir punktar eru nefndir þrýstipunktar og eru taldir vera um það bil 25 talsins, sem algengt er að hestar upplifi vöðvaspennu eða svæði sem oftast verða fyrir streitu, álagi eða hugsanlegum meiðslum (Scott & Swenson, 2009).

Algenga þrýstipunkta á hestinum má sjá á myndinni hér fyrir neðan.

Þrýstipunktar á hestum

Vöðvafell (e. fascia) er þunnt en flókið lag af bandvef sem umlykur og aðskilur vöðva og vöðvahópa. Þegar bandvefurinn verður stífur getur það haft í för með sér skerta hreyfigetu og komið í veg fyrir að vefurinn nái að teygjast í fulla lengd (Findley, Chaudhry, Stecco & Roman, 2012). Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi bandvefskerfisins á getu líkamans til að starfa eðlilega. Bæði getur aukið álag af völdum ofreynslu, síendurtekinnar hreyfingar eða ofurhreyfanleika og of lítið álag vegna hreyfingarleysis valdið breytingum á bandvef. Ef um langverandi fjarveru á spennu bandvefs og vöðva er að ræða, getur það leitt til rýrnunar á mjúkvefjum, samgróninga og óeðlilegs bandvefsvaxtar (Scott & Swenson, 2009). Staðbundin þykknun á bandvef, oftast kallaðir vöðvahnútar eða vöðvabólga, getur valdið óþægindum og í slæmum tilfellum haft talsverð áhrif á almenna vellíðan og afkastagetu (Han & Harrison, 1997).

Ýmis hjálpartæki hafa verið búin til fyrir bandvefslosun fyrir fólk, s.s. nuddrúllur og önnur tól til sjálfsnudds. Á undanförnum árum hafa þrýstihöggsmeðferðir (e. percussive therapy) með nuddbyssu notið aukinna vinsælda meðal meðferðaraðila og íþróttafólks. Nýlegar rannsóknir á fólki hafa sýnt að þrýstihöggsmeðferð hefur jákvæð áhrif á hreyfigetu vegna minnkunar á stífni vöðva og almennrar vöðvaspennu (Konrad, Glashüttner, Reiner, Bernsteiner & Tilp, 2020), auk þess að bæta sveigjanleika og draga úr líkamlegum óþægindum við ákveðnar hreyfingar (Patel & Patel, 2020). Sýnt hefur verið fram á að hefðbundið nudd og notkun á nuddrúllum og titringstækjum strax eftir líkamlegt álag dregur úr harðsperrum þar sem það eykur blóðflæði í vöðvunum og minnkar sársaukaskynjun (Cochrane, 2017; Imtiyaz, Veqar & Shareef, 2014; Weerapong, Hume & Kolt, 2005).

Rannsóknir sýna því augljóslega að notkun nuddbyssu sé áhrifarík til þess að auka hreyfigetu og draga úr líkum á harðsperrum í kjölfar álags. Meðferð getur því bæði verið beitt við upphitun og endurheimt, sem og við endurhæfingu þar sem meðferð getur dregið úr skynjuðum sársauka og losað um vöðvaspennu (Martin, 2021). Líkt og hefðbundnar nuddaðferðir hjá fólki hafa sýnt fram á jákvæð áhrif á hross í gegnum tíðina má ætla að þau jákvæðu áhrif sem þrýstihöggsmeðferð með nuddbyssum virðist hafa á fólk, eigi jafnframt við um hesta.

Nuddmeðferðir

50%

Gjafahugmyndir

Equice Pro Nuddbyssa

kr.18.990 með vsk. kr.9.495 með vsk.
kr.74.990 með vsk.
kr.31.990 með vsk.


Heimildir

Cochrane, D. J. (2017). Effectiveness of using wearable vibration therapy to alleviate muscle soreness. European journal of applied physiology, 117(3), 501-509. https://doi.org/10.1007/s00421-017-3551-y

Findley, T., Chaudhry, H., Stecco, A., & Roman, M. (2012). Fascia research–a narrative review. Journal of bodywork and movement therapies, 16(1), 67-75. https://doi.org/10.1016/j.jbmt.2011.09.004

Han, S. C. og Harrison, P. (1997). Myofascial pain syndrome and trigger-point management. Regional Anesthesia and Pain Medicine, 22(1), 89–101. doi:10.1016/S1098-7339(06)80062-3

Imtiyaz, S., Veqar, Z., & Shareef, M. Y. (2014). To compare the effect of vibration therapy and massage in prevention of delayed onset muscle soreness (DOMS). Journal of clinical and diagnostic research: JCDR, 8(1), 133. https://doi.org/10.7860/JCDR/2014/7294.3971

Konrad, Glashüttner, Reiner, Bernsteiner & Tilp. (2020). The Acute Effects of a Percussive Massage Treatment with a Hypervolt Device on Plantar Flexor Muscles' Range of Motion and Performance. Journal of sports science & medicine. 19. 690-694.

Martin, J. (2021). “A Critical Evaluation of Percussion Massage Gun Devices as a Rehabilitation Tool Focusing on Lower Limb Mobility: A Literature Review.” SportRxiv. January 20. doi:10.31236/osf.io/j9ya8.

Patel, R., & Patel, A. (2020). Effect of theragun on the improvement of back flexibility: A case study. J Appl Dent Med Sci, 19(5), 15-6. https://doi.org/10.18857/jkpt.2020.32.4.245

Weerapong, P., Hume, P. A., & Kolt, G. S. (2005). The mechanisms of massage and effects on performance, muscle recovery and injury prevention. Sports medicine, 35(3), 235-256. https://doi.org/10.2165/00007256-200535030-00004

Þessi vefsíða notar fótspor (cookies) til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um notkun fótspora.